Innlent

Stærsta fíkniefnamál ársins - hefur lítil áhrif á fíkniefnamarkaðinn

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur að andvirði fíkniefnanna, sem voru haldlögð í Straumsvík í október, hlaupa á mörg hundruð milljónum. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lögreglan hélt vegna málsins, en tveir menn eru í haldi vegna smyglsins.

Tæplega tíu kíló af amfetamíni voru haldlögð og rúmlega átta þúsund e-töflur, auk þess sem 200 grömm af kókaíni var í sendingunni og eitthvað af sterum. Skipið sem kom með fíkniefnin var að koma frá Rotterdam í Hollandi. Það vakti athygli lögreglunnar hversu sterkt amfetamínið var. Þannig reyndist styrkleiki amfetamínsins vera á bilinu 40-50 prósent. Þess má geta að styrkleiki amfetamíns, sem er selt á götunni, er um 10 prósent.

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns, þá hefur magnið, sem nú var gert upptækt, líklega ekki afgerandi áhrif á fíkniefnamarkaðinn hér á landi, þrátt fyrir að um sé að ræða stærsta fíkniefnamál ársins.

Hann sagði það gæti haft áhrif til skamms tíma, þó væri erfitt að leggja mat á það.

Mennirnir tveir sem eru í gæsluvarðahaldi eru hinir einu handteknu í málinu. Annar þeirra hefur margsinnis komist í kast við lögin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×