Innlent

Bjarni og Cameron funduðu í Lundúnum

Mynd/Íris Björk Reynisdóttir
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins fundaði í dag með kollega sínum David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Þeir hittust í Lundúnum í morgun og ræddu ESB, efnahagsmál og Icesave en Bjarni sækir nú ráðstefnu íhaldsflokka í Lundúnum.

 

„Við ræddum stöðu ESB-viðræðnanna og efnahagsástandið í Evrópu. Bretar eru ánægðir með að vera fyrir utan evrusvæðið og Cameron er á þeirri skoðun að Bretar eigi ekki að taka upp evruna.  Ég notaði tækifærið til að ræða um Icesave-deiluna við hann og vakti athygli á því að nú væri ljóst að kröfur Breta og Hollendinga fengjust að fullu greiddar. Því væri rétt að ríkin felldu þessa deilu niður og færu að horfa til framtíðar," segir Bjarni.

Í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum segir ennfremur að þeir Bjarni og Cameron hafi rætt um leiðir út úr efnahagsvanda Evrópuríkja.  „Á þessari ráðstefnu sem við sitjum hér hefur kastljósið beinst að leiðum út úr vandanum. Það er ljóst að þau ríki sem standa best hafa lagt áherslu á að lækka skatta, ná tökum á ríkisfjármálum og greiða niður skuldir auk þess að fjölga störfum. Það er óneitanlega mikill samhljómur með þessu og málflutningi okkar sjálfstæðismanna," segir Bjarni.

 

„Forsætisráðherra Bretlands spurði um ástandið í íslenskum stjórnmálum og segist Bjarni hafa sagt honum að ríkisstjórnin hefði ekki getað staðið við loforð sín um að koma íslensku þjóðinni út úr kreppunni. Afleiðingin væri sú að kjósendur hefðu misst trú á ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum. Skoðanakannanir sýndu aftur á móti að Sjálfstæðisflokkurinn nyti langmests fylgis,“ segir ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×