Innlent

Tveir Ítalir fara yfir Friðarsúluna

Boði Logason skrifar
"Það er eitthvað um þrjátíu þúsund krónur á mann með gistingunni,“ segir Hafþór um kostnað borgarinnar fyrir dvöl þeirra hér á landi.
"Það er eitthvað um þrjátíu þúsund krónur á mann með gistingunni,“ segir Hafþór um kostnað borgarinnar fyrir dvöl þeirra hér á landi. Mynd/AntonBrink
Tveir menn frá ítalska fyrirtækinu Space Cannon eru staddir hér á landi vegna viðhalds á Friðarsúlunni í Viðey. Kostnaður Reykjavíkurborgar er um sextíu þúsund krónur vegna dvalar þeirra hér á landi.

Í ár eru fjögur ár frá því að kveikt var á súlunni fyrsta skiptið en þetta er í annað skiptið sem mennirnir koma hingað til lands til að athuga hvort súlan sé í lagi.

Hafþór Yngvason, safnstjóri hjá Listasafni Reykjavíkur sem ber ábyrgð á öllum útilistaverkum borgarinnar, segir að mennirnir frá Space Cannon séu að yfirfara tækjabúnaðinn en fyrirtækið framleiðir búnaðinn sem notaður er í ljósaverkið og setti súluna upp fyrir fjórum árum. „Þeir eru bara hér til að taka stöðuna á súlunni og eru að vinna að nýrri viðhaldsáætlun," segir hann.

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðstjóri hjá menningar- og ferðamálasviði borgarinnar, segir að það sé allt í lagi með súluna - hún sé ekki biluð eða neitt svoleðis. Eftirlitið sé eðlilegur hluti af rekstri súlunnar.

Hafþór segir að mennirnir hafi komið í gærkvöldi og fari á sunnudagsmorgun en hann skipulagði ferð þeirra hér á landi. Hann segir að Reykjavíkurborg taki þátt í kostnaðinum að hluta til. „Við borgum kostnaðinn hér á landi, hótel og ferðirnar út í eyjuna," segir hann en svo fá mennirnir einnig dagpeninga frá borginni.

Þeir borga þó sjálfir flugferðina til og frá landinu, segir hann. Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna dvalar þeirra félaga þessa tvo daga er heldur í lægri kantinum. „Það er eitthvað um þrjátíu þúsund krónur á mann með gistingunni," segir Hafþór og bendir á að fengist hafi gott verð fyrir hótelið. Sama hafi verið upp á teningnum þegar mennirnir komu fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×