Íslenski boltinn

Arnar tryggði Fram mikilvægan sigur á Blikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Framarar eru ekki búnir að gefast upp í fallbaráttu Pepsi-deildar karla því þeir náðu í þrjú mikilvæg stig með því að vinna 1-0 sigur á fráfarandi Íslandsmeisturum Breiðabliks á Laugardalsvellinum í dag. Arnar Gunnlaugsson skoraði eina mark leiksins um miðjan fyrri hálfleikinn.

Framarar unnu þarna sinn annan heimaleik í röð en fram að þessum sigrum hafði Safamýrarliðinu aðeins tekist að ná í tvö stig út úr fyrstu sjö leikjum sínum í Laugardalnum.

Fram er nú þremur stigum á eftir Keflvíkingum sem sitja í síðasta örugga sætinu og eiga leik inni á móti Valsmönnum seinna í dag.

Sigur Framaravar sanngjarn því Blikarnir sýndu ekki merkilegan fótbolta í þessum leik. Blikar fengu þó nokkur ágæt hálffæri oftast í kringum Kristinn Steindórsson en tókst ekki að nýta þau. Framliðið náði upp meira og betra spili og spilaði síðan seinni hálfleikinn mjög skynsamlega.

Leikurinn fór afar rólega af stað og lítið gerðist fyrstu átján mínúturnar. Hvorugt liðið vildi taka mikla áhættu og mikið var um fámennar sóknaraðgerðir. Blikar fengu nokkrar hornspyrnur sem lítið kom út úr.

Blikar áttu fyrsta skotið á markið sem kom ekki fyrr en eftir 18 mínútna leik en það má segja að skalli Þórðar Hreiðarssonar í slánna eftir hornspyrnu Rafns Andra Haraldssonar á 22. mínútu hafi vakið Framara. Þeir náðu síðan strax sókn sem skilaði marki.

Arnar Gunnlaugsson batt þá endahnútinn á laglega sókn. Samuel Hewson stakk boltanum inn í teiginn á Steven Lennon sem gaf boltann fyrir markið þar sem Arnar var einn í markteignum og setti boltann í autt markið.

Framarar tóku öll völd á vellinum eftir þetta og það var oft ótrúlegt að horfa upp á andleysið í Blikaliðinu en leikur Blikaliðsins einkenndist lengstum af einstaklingsframtaki og einkarklaufalegu spili.

Framarar náðu þó ekki að opna Blikavörnina þrátt fyrir laglegt spil út á vellinum og undir lok hálfleiksins fengu Blikar tvö fín færi sem hefðu vel getað skilað jöfnunarmarki. Fyrst varði Ögmundur Kristinsson frá Kristni Steindórssyni og svo skaut Árni Vilhjálmsson framhjá eftir að hafa fengið flotta stungusendingu frá fyrrnefndum Kristni.

Blikarnir fóru sér hægt inn í seinni hálfleikinn og það virtist vera ekkert hungur í leikmönnum liðsins að reyna að jafna leikinn. Seinni hálfleikurinn var því tíðindarlítill og hvorugt liðið tók einhverja áhættu. Það hentaði Framliðinu mun betur enda 1-0 yfir.

Pressa Blika jókst aðeins í lokin en þó aldrei meira en svo að sigur Framliðsins var eiginlega aldrei í mikilli hættu.

Blikarnir standast illa samanburð við Íslandsmeistaraliðið sitt í fyrra enda er skemmtilega spilið þeirra alltof sjaldgæf sjón núorðið. Liðið hefur ekki að miklu að keppa lengur og það sást vel á líkamstjáningu leikmanna liðsins í þessum leik.

Hér fyrir neðan má sjá textalýsingu frá blaðamanni Vísis á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×