Ríkissjónvarpsstöð Líbíu greindi frá því í nótt að hermenn þjóðarinnar væri tryggir Muamma Gaddafi. Jafnframt var því haldið fram að þeir hafi náð töluverðum árangri í að bæla niður uppreisnina í Líbíu en mótmælendur hafa náð völdum í stórum hluta landsins í vopnuðum átökum við hermenn Gaddafis, undanfarnar tvær vikur.
Því var haldið fram af ríkismiðlinum að herinn hafi náð völdum í gær í borgunum Misrata, Ras Lanuf og Tobruk. Hins vegar hafa uppreisnarmenn og íbúar borganna haldið því fram í öðrum miðlum að mótmælendur séu enn við völd í þessum borgum.
Ríkismiðillinn hélt því einnig fram að skot og sprengjuhljóð, sem ómuðu um höfuðborg landsins í nótt, hafi verið hermenn að fagna sigri sínum á uppreisnarmönnum.
Fréttamenn breska ríkisútvarpsins í Líbíu segja hins vegar fréttaflutninginn hreinan uppspuna og að allt bendi til þess að mótmælendur hafi enn yfirhöndina í Líbíu.
