Innlent

Uppnám hjá starfsmönnum

Þorsteinn Fr. Sigurðsson
Þorsteinn Fr. Sigurðsson

„Það er alveg óráðið hver okkar verkefni verða næstu dagana,“ segir Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri undirbúningsnefndar stjórnlagsþingsins. Hann hefur starfað að undirbúningi þingsins síðan í ágúst. Nú vinna fimm manns fyrir þingið og eru störf þeirra í uppnámi.

Þorsteinn segir niðurstöðu Hæstaréttar vonbrigði. Til stóð að ráða tólf manns til starfa fyrir þingið á næstunni og höfðu umsækjendur verið kallaðir í viðtöl, að sögn Þorsteins. Ekki hafði þó verið gengið frá neinni ráðningu.

Fulltrúar á stjórnlagaþingi áttu að byrja að þiggja laun 15. febrúar, þegar til stóð að þingið hæfist. Spurður hvort hið opinbera hafi með einhverjum hætti skuldbundið sig gagnvart fulltrúunum, jafnvel þótt ekki verði af þinginu, segist Þorsteinn ekki geta svarað því. Það sé lagalegt úrlausnarefni.

Stjórnlagaþing átti að kosta í heildina á sjötta hundrað milljónir. „Ég geri mér ekki grein fyrir hvar kostnaðurinn liggur eða hver kostnaðurinn yrði ef þingið yrði blásið af,“ segir Þorsteinn. „En auðvitað yrðu það einhverjar milljónir, sem eðlilegt er því við erum langt komin með að undirbúa þingið.“ Sá undirbúningur muni hins vegar að mestu nýtast ef ákveðið verður að kjósa aftur og þinga seinna. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×