Innlent

Jarðeðlisfræðingur: Ef þetta er kvika þá er þetta eitthvað nýtt

Símon Birgisson skrifar
Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið á Reykjaneshrygg síðastliðna nótt og í dag. Stærsti skjálftinn, fjórir komma tveir á richter varð um klukkan hálf sex síðdegis. Annar litlu minni skjálfti fannst víða á höfuðborgarsvæðinu í morgun.

Búast má við aukinni skjálftavirkni á þessu svæði og segir jarðeðlisfræðingur að kvikusöfnun á Krýsuvíkursvæðinu geti verið orsök hræringanna.

Sigrún Hreinsdóttir, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, segir að Krýsuvíkursvæðið hafi alltaf verið frekar virkt. „En núna að undanförnu höfum við verið að skoða atburði sem eru óvenjulegir. Við settum GPS mælitæki í stöð 2007. Í byrjun árs 2009 fór stöðin að sýna þennslu sem gekk síðan til baka en í maí 2010 hefur svæðið verið að rísa aftur. Skjálftavirknin sem við erum að fá núna er afleiðing af þessari þennslu sem er í gangi þarna," segir Sigrún.

Hvað gæti útskýrt svona þennslu?

„Algengustu þennslusvæðin eru vegna eldvirkni, það er það sem við þekkjum best. En það hefur ekki verið mikið af eldvirkni á Reykjanesi í nokkur hundruð ár. Ef þetta er kvika þá er þetta eitthvað nýtt, alllavega eitthvað sem við höfum ekki séð áður," segir Sigrún.

Jarðskjálftinn í morgun var hluti af stórri jarðskjálftahrinu. Hrinan náði hámarki í morgun þegar þrír skjálftar yfir 3 stig á mældust - sá stærsti var upp á fjóra á Richter skalanum. Í Krýsuvíkurskólanum, nokkrum kílómetrum frá upptökum skjálftans sögðu vistmenn, sem fréttastofa ræddi við, að allt hefði leikið á reiðiskjálfi.

Fjöldi eftirskjálfta mældust svo í dag.

Og er hægt að spá einhverju um framhaldið?

„Nei, en fyrst þetta er komið upp í þessa stöðu og heldur áfram má búast við aukinni skjálftavirkni. Við erum með virkt svæði og þegar við bætum svona þennslu þá erum við að auka virknina á þessu svæði," segir Sigrún.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×