Ný heildarlög um fjölmiðla voru samþykkt á Alþingi í gær. 30 þingmenn greiddu atkvæði með lögunum og 14 gegn þeim.
Markmið laganna er að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum. Með þeim á að samræma löggjöf á alla íslenska fjölmiðla, óháð því miðlunarformi sem notað er. Einnig eiga þau að efla vernd neytenda á vettvangi fjölmiðla.
Í lögunum segir að mennta- og menningarmálaráðherra skuli skipa nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um viðeigandi takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum.
Einn þingmaður gerði grein fyrir atkvæði sínu, Sigurður Kári Kristjánsson, og greiddi hann atkvæði á móti frumvarpinu. Sigurður gagnrýndi að lögin tækju ekki á eignarhaldi á fjölmiðlum. Þá var staða Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaðnum einnig gagnrýnd.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hóf umræður um frumvarpið á Alþingi í gær og sagði álitaefni sem líta að lögunum mörg, en samþykkt þeirra væri engu að síður jákvætt skref fyrir starf fjölmiðla í landinu. - sv
Samræmd lög um alla fjölmiðla
