Erlent

Fleiri mótmælendur drepnir

Mótmælendur í Sana telja ótímabært að fagna afsögninni strax.
Mótmælendur í Sana telja ótímabært að fagna afsögninni strax. nordicphotos/AFP
Mótmælin í Jemen hættu ekki þótt Ali Abdullah Saleh forseti hafi samþykkt að segja af sér. Ekkert lát er heldur á ofbeldi af hálfu stjórnarinnar. Öryggissveitir urðu fimm mótmælendum að bana í gær í höfuðborginni Sana.

Leiðtogar stjórnarandstöðuflokka í Jemen hétu Saleh forseta refsileysi gegn loforði hans um afsögn. Samningurinn gerir ráð fyrir því að Abed Rabbo Mansour Hadi varaforseti taki við en kosningar verði haldnar innan þriggja mánaða.

Mótmælendur eru ósáttir við að stjórnarandstöðuflokkarnir geri samkomulag af þessu tagi, því þeir hafi ekkert umboð frá mótmælendahreyfingunni sem ekki á fulltrúa á þingi.

Mótmælendurnir eru einnig ósáttir við að Saleh hafi verið heitið refsileysi. Einnig segja þeir ómögulegt að vita nema Saleh snúist hugur og vilji sitja áfram þegar á reynir. Hann hefur þrisvar áður lofað afsögn en ekki staðið við það.

Sjálfur gaf Saleh til kynna, þegar hann undirritaði samninginn í Sádi-Arabíu á miðvikudag, að hann gæti vel hugsað sér að taka áfram þátt í stjórnmálum í Jemen, enda er flokkur hans enn öflugur á þingi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×