Erlent

Kínverjar hóta Bandaríkjunum viðskiptastríði

Ánægðir öldungadeildarþingmenn Repúblikaninn Jeff Sessions og demókratinn Chuck Schumer eru sammála.fréttablaðið/AP
Ánægðir öldungadeildarþingmenn Repúblikaninn Jeff Sessions og demókratinn Chuck Schumer eru sammála.fréttablaðið/AP
Kínversk stjórnvöld hafa brugðist ókvæða við lagafrumvarpi sem öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að taka á dagskrá. Frumvarpið felur í sér heimild til stjórnvalda til að refsa ríkjum sem vísvitandi halda gengi gjaldmiðils síns niðri.

Frumvarpinu er augljóslega beint fyrst og fremst gegn kínverskum stjórnvöldum, sem árum saman hafa haldið gengi júansins mjög lágu – sem kemur sér vel fyrir kínverskan útflutning og kínverska ríkissjóðinn en illa fyrir Bandaríkin og önnur lönd, sem fá litlar tekjur af viðskiptum við Kína. Kínversk stjórnvöld telja hagvexti sínum ógnað verði frumvarpið samþykkt, og hafa komið harðorðum mótmælum á framfæri. „Þetta gæti leitt af sér viðskiptastríð, sem við viljum ekki,“ segir í yfirlýsingu frá kínverska seðlabankanum.

Nokkuð öruggt þykir að öldungadeild Bandaríkjanna samþykki frumvarpið undir lok vikunnar, en óvissa er um afdrif þess í fulltrúadeildinni. Á síðasta ári samþykkti fulltrúadeildin, þegar demókratar höfðu þar meirihluta, sams konar frumvarp, en nú hafa repúblikanar, sem eru komnir með meirihluta í deildinni, lýst yfir efasemdum. Ekki síst vegna þess að þeir telja afleiðingarnar geta orðið óútreiknanlegar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×