Innlent

Fangar þurfa sjálfir að greiða fyrir stinningarlyfin

Litla Hraun.
Litla Hraun.
„Almennt séð, þá eiga allir íbúar landsins rétt á læknaþjónustu, hvort sem þeir eru fangar eða ekki,“ segir Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU), spurður út í stinningarlyf sem fangar á Litla Hrauni fá uppáskrifuð frá stofnuninni.

Það var DV sem greindi frá því í blaði sínu í gær að fangar á Litla Hrauni fengu stinningarlyf skrifuð frá fangelsislækni, sem starfar hjá HSU.

„Það er hinsvegar mikilvægt að fram komi að Viagra er aldrei niðurgreitt af ríkinu,“ segir Óskar en Viagra eru dýr lyf. Fjögurra töflu skammtur af lyfinu kostar á bilinu átta til níu þúsund krónur. Það er gjald sem fangar þurfa að greiða sjálfir fái þeir lyfið. Svo er til samheitarlyf sem er mun ódýrara.

Óskar bendir á að læknar sem sinna föngum á Litla Hrauni ávísa aldrei róandi lyfjum til fanga. „Við höfum fengið góða dóma fyrir lyfjagjöf í fangelsinu. Við erum á heimsmælikvarða hvað það varðar,“ segir Óskar en læknar sem sinna föngum eiga í margvísislegu samstarfi, meðal annars við yfirlækni geðsviðs á Landspítalanum, og að sjálfsögðu fangelsismálayfirvöld.

„Svo eru þarna matsatriði að sjálfsögðu, til dæmis ef kynferðisbrotamaður ætti í hlut,“ segir Óskar sem bendir á að læknir meti hvert tilvik fyrir sig og það sé vandað til verka í svona málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×