Innlent

Hundruð manna hlýða á Annan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hátt í 1300 manns munu sækja hátíðarmálþing Háskóla Íslands sem haldið verður í tilefni af aldarafmæli skólans á morgun í Háskólabíói. Yfirskrift málþingsins er „Áskoranir 21. aldar" og þar munu heimsþekktir fyrirlesarar, fræðimenn og stjórnendur háskóla velta fyrir sér þeim stóru áskorunum sem bíða mannkyns á nýhafinni öld.

Aðalfyrirlesari málþingsins verður Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna og friðarverðlaunahafi Nóbels. Erindi hans ber heitið „Restoring Confidence in our Shared Future".

Auk Annans taka þau Carol Carmichael frá Linde Center for Global Environmental Science við California Institute of Technology (Caltech), Freysteinn Sigmundsson, sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Ole Petter Ottersen, rektor Óslóarháskóla, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, til máls.

Skráning á hátíðarmálþingið í stóra sal Háskólabíós hófst þann 20. september og á örskömmum tíma fylltust öll sæti salarins. Því var gripið til þess ráðs að varpa málþinginu yfir á kvikmyndatjald í næststærsta sal bíósins þannig að fleiri gætu fylgst með málþinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×