Erlent

Telja að sami hákarlinn hafi verið að baki báðum árásum

Grunur leikur á að einn hákarl hafi verið valdur að dauða tveggja manna í mánuðinum.
Grunur leikur á að einn hákarl hafi verið valdur að dauða tveggja manna í mánuðinum. Mynd/AFP
Heimamenn á Seychelles eyjum telja að sami hákarlinn hafi verið að baki báðum þeim árásum sem dregið hafa tvo menn til dauða á eyjunum í þessum mánuði. Ströndum á eyjunni þar sem harmleikirnir áttu sér stað hefur nú verið lokað.

Báðar árásirnar áttu sér stað í sjónum við Anse Lazio ströndina á Paslin eyju í Seychelles eyjaklasanum, en ströndin hefur ítrekað verið kosin ein sú besta í heiminum. Í fyrri árásinni, sem átti sér stað þann 2. ágúst síðastliðinn, lét 36 ára gamall ferðamaður frá Frakklandi lífið. Í gær lést svo hinn þrítugi nýgifti Ian Redmond frá Bretlandi, sem var nýkominn til eyjunnar ásamt eiginkonu sinni, en þau voru þar stödd í brúðkaupsferð.

Manni á smábát tókst að draga Redmond upp úr sjónum eftir árásina í gær og var hann lýstur látinn við komuna á sjúkrahús. Redmond lést af völdum blóðmissis, en hákarlinn hafði rifið af honum handlegg auk þess sem hann beit hluta af vinstri fótlegg hans.

Yfirvöld Seychelles eyja vinna nú að því að finna hákarlinn, sem talið er að beri ábyrgð á báðum árásunum. Samkvæmt sérfræðingi sem Sky fréttastofan ræddi við í dag er hákarl sem hefur bragðað mannablóð eða tapað ótta sínum við menn, afar líklegur til að ráðast aftur á manneskjur.

Árlega berast fregnir af um 60-80 hákarlaárásum víðsvegar um heim, en á síðasta ári létust 6 í slíkum árásum. Árásir síðustu tveggja vikna eru hinsvegar einu hákarlaárásirnar í sögu Paslin eyjarinnar í tæp 50 ár.


Tengdar fréttir

Lést í hákarlaárás í brúðkaupsferðinni sinni

Yfirvöld á Seychelles eyjum hafa staðfelst að þrítugur karlmaður frá Bretlandi hafi látið lífið þegar hákarl réðst á hann við Paslin eyju í dag. Maðurinn var staddur á eyjunni ásamt eiginkonu sinni í brúðkaupsferð þeirra hjóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×