Einn skipverji á hvalaskoðunarbátnum Knerri féll útbyrðis í nótt og ofkældist á meðan annar skipverji brotnaði illa á öðrum fæti. Hvalaskoðunarbáturinn var að draga skútuna Áróru, sem er upprunalega frá Ísafirði, til Húsavíkur þegar atvikið átti sér stað.
Átta manns voru um borð í skútunni sem var að koma frá Jan Mayen. Skútan hafði ekki afl til þess að vinna á móti vindinum sem varð til þess að hvalaskoðunarbáturinn Knörrinn sigldi til móts við skútuna til þess að aðstoða skipverjana í land.
Hvalaskoðunarbáturinn dró skútuna en kaðall, sem var fastur á milli bátanna, festist í skrúfu bátsins með þeim afleiðingum að einn skipverjinn klemmdist á milli kaðals og bátsins. Hann brotnaði illa á fæti. Annar féll svo útbyrðis og var þar í fimm mínútur í það minnsta. Félagar hans náðu honum að lokum upp úr og mátti litlu muna að verr færi.
Í kjölfarið var kallað á björgunarsveitina þar sem skútan var orðin aflvana.
Skútan komst að lokum í höfnina og voru skipverjarnir tveir af Knerri færðir á fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Sá sem féll útbyrðis ofkældist og ljóst er að hinn er fótbrotinn.
