Erlent

Háttsettir félagar Gaddafís flýja

Samningaviðræður nálægt Bani Walid Abdalla Kenshil, aðalsamningafulltrúi uppreisnarmanna, ásamt ættbálkaleiðtogum frá Bani Walid í mosku skammt fyrir utan borgina.fréttablaðið/AP
Samningaviðræður nálægt Bani Walid Abdalla Kenshil, aðalsamningafulltrúi uppreisnarmanna, ásamt ættbálkaleiðtogum frá Bani Walid í mosku skammt fyrir utan borgina.fréttablaðið/AP
Nokkrir háttsettir stuðningsmenn Múammars Gaddafí flúðu í gær frá Líbíu yfir til nágrannalandsins Níger. Þeir fóru þangað í hópum í nokkrum bílalestum, sem ekið var hratt yfir eyðimörkina í Líbíu til landamæranna.

Meðal þeirra sem flúðu var Mansour Dao, sem var yfirmaður öryggismála hjá Gaddafí. Þetta staðfesti tollvörður á landamærunum í Níger.

Um tólf aðrir háttsettir embættismenn Gaddafístjórnarinnar eru sagðir hafa verið meðal þeirra sem yfirgáfu landið.

Flóttinn getur skipt sköpum í baráttu uppreisnarmanna gegn stuðningsmönnum Gaddafís, sem enn hafa á valdi sínu þrjár borgir í landinu, Bani Walid, Sirte og Sabha.

Ekkert er enn vitað um Gaddafí sjálfan en fullvíst þótti að hann hefði ekki verið með í bílalestunum sem fóru til Níger í gær.

Leiðtogar uppreisnarhreyfingarinnar, sem hefur náð mestum hluta landsins á sitt vald, þar á meðal höfuðborginni Trípolí, hafa átt í samningaviðræðum við ættbálkahöfðingja í Bani Walid.

Takmarkaður árangur hafði þó orðið af þeim viðræðum í gær, enda mikil tortryggni á báða bóga.

Uppreisnarmenn segja íbúana í Bani Walid skiptast í tvær fylkingar, og vilji sumir gefast upp en aðrir halda áfram baráttu gegn uppreisnarmönnum, þótt vonlítil virðist vera.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×