Enski boltinn

Vilja að Pearce þjálfi Ólympíulið Breta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuart Pearce, þjálfari enska U-21 liðsins.
Stuart Pearce, þjálfari enska U-21 liðsins. Nordic Photos / Getty Images

Knattspyrnusamband Englands vill að Stuart Pearce, þjálfari U-21 landsliðs Englands, verði þjálfari Ólympíuliðs Breta á leikunum í Lundúnum árið 2012.

Alex Horne, farmkvæmdarstjóri sambandsins, segir að það sé rökrétt að Pearce taki að sér starfið og vill að málið verði frágengið fyrir júní næstkomandi.

Enska U-21 liðið verður grunnur Ólympíuliðsins en liðið keppir ásamt því íslenska og sex öðrum liðum í úrslitakeppni EM næsta sumar.

Mikið hefur verið rætt um hvernig breska Ólympíuliðið eigi að vera skipað þar sem að Bretland sendir ávallt sameiginlegt keppnislið á Ólympíuleika.

Hins vegar eru England, Skotland, Wales og Norður-Írland öll með sín eigin knattspyrnusambönd og þau þrjú síðastnefndu vilja ekki taka þátt í myndun sameiginlegs knattspyrnuliðs þar sem það gæti ógnað sérstöðu þeirra á alþjóðavísu.

Horne er þó enn vongóður um að knattspyrnusamböndin þrjú verði mildari í afstöðu sinni eftir því sem styttist í leikana. En eins og málin standa nú verði eingöngu enskir knattspyrnumenn í Ólympíuliðinu.

Aðeins þrír leikmenn eldri en 23 ára mega skipa Ólympíuliðið en allir þeir sem taka þátt á EM U-21 liða í sumar verða gjaldgengir í sín Ólympíulið.

Efstu þrjú liðin (fyrir utan Englands) á EM í sumar öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×