Innlent

Ekki þörf á stúdentsprófi til að sjá nauðsyn sameiningar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Gnarr benti á nauðsyn þess að sveitarfélög yrðu sameinuð.
Jón Gnarr benti á nauðsyn þess að sveitarfélög yrðu sameinuð. mynd/ vilhelm.
Jón Gnarr borgarstjóri ítrekaði við umræðu um fjárlagafrumvarp Reykjavíkurborgar að mikilvægt væri að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Hann benti á að á  höfuðborgarsvæðinu væru sjö sveitarfélög sem samtals gerðu sjö fjárhagsáætlanir, væru með sjö yfirstjórnir og sjö bæjarstjóra.

„Maður þarf ekki að hafa stúdentspróf í  stærðfræði til að átta sig á þeim fjárhagslega ávinningi sem sameining þessara  sveitarfélaga myndi hafa í för með sér og hvað slík sameining gæti búið til miklu  öflugri og sanngjarnari borg,“ sagði Jón í ræðu sinni.

Jón benti á að Reykjavík væri að sinna margvíslegri þjónustu fyrir önnur sveitarfélög. Þar mætti nefna þjónustu við útigangsfólkið í miðbænum sem ekki væri allt Reykvíkingar. Það væru ekki bara Reykvíkingar sem gistu í Gistiskýlinu í Þingholtstræti eða nýttu sér Dagsetur Hjálpræðishersins út á Granda. Þá væri Reykjavík eina sveitarfélagið sem styrkti Fjölskylduhjálp Íslands.

„Talandi um útigangsfólk þá er Reykjavíkurborg að styrkja Kattholt eitt sveitarfélaga á landinu. En það eru ekkert bara reykvískir kettir sem fá þar aðhlynningu, þar slæðast nú inn einn og einn slæptur persneskur köttur úr Garðabæ,“ sagði Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×