Erlent

Óvinsæll forseti sannaði að hann væri á lífi

Mutharika hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti sínu.
Mutharika hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti sínu. mynd/AFP
Forseti Malaví þurfti að kalla til blaðamannafundar til að sanna að hann væri í raun á lífi.

Orðrómur um heilsubrest forsetans spratt upp þegar hinn 78 ára gamli Bingu wa Mutharika hvarf á brott. Talið var að forsetinn hefði farið til Kína til að gangast undir lífshættulega aðgerð.

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar í Malaví fjallað um slæma heilsu forsetans. Í fréttablöðum kom fram að forsetinn væri að berjast við dularfullann sjúkdóm sem ógnaði lífi hans.

Mutharika kallaði til fundarins og ávarpaði blaðamenn símleiðis. Í fréttablaðinu Nyasa Times kemur fram að forsetinn hafi verið æfur yfir vangaveltum fjölmiðla í landinu. Hann sagði að heilsa sín væri frábær og tók fram að eiginkona sín væri einnig við góða heilsu.

Mutharika var harðlega gagnrýndur í júlí eftir að hann hafði fyrirskipað her landsins að berja aftur mótmæli gegn ríkisstjórn hans. Tugir létust í aðgerðunum.

Mánuði seinna rak forsetinn meðlimi ríkisstjórnarinnar og tók við öllum embættum sjálfur. Síðan þá hefur Mutharika skipað fjölskyldumeðlimi sína í stjórnarstöður ríkisstjórnarinnar.

Íbúum Malaví er eflaust létt eftir að heilsa forsetans reyndist vera góð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×