Erlent

Gjaldþrota borg setur fornmuni frá villta vestrinu á uppboð

Borgin Harrisburg í Pennsylvaníu hefur lýst sig gjaldþrota. Framundan er uppboð á þúsundum fornminja frá tímum villta vestursins sem eru í eigu borgarinnar.

Í Harrisburg búa um 50.000 manns en áralöng óstjórn í fjármálum borgarinnar hefur leitt til þess að skuldir hennar eru komnar í 300 milljónir dollara eða um 35 milljarða króna. Þá skuld ræður borgarsjóðurinn ekki við.

Í umfjöllun um málið á BBC segir að borgin eigi um 8.000 fornmuni frá tímum villta vestursins og ætlunin sé að reyna að selja megnið af þeim á uppboði til að mæta skuldunum.

Meðal þess sem hægt verður að kaupa á uppboðinu eru leðurhanskar sem hugsanlega voru eitt sinn í eigu Buffalo Bill, plakat þar sem verðlaunum er heitið fyrir Jesse James dauðan eða lifandi og hesthóf með skeifu úr orrustunni við Little Big Horn.

Undarlegasti hluturinn í safninu er þó fullkomin verkfærataska til að drepa vampírur. Í henni er að finna skammbyssu með silfurkúlum, stjaka, spegla og krukku fulla af hvítlauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×