Erlent

Pútín fær furðuleg friðarverðlaun Kínverja

Pútín, til vinstri, ásamt forseta Rússlands, Dimitry Medvedev.
Pútín, til vinstri, ásamt forseta Rússlands, Dimitry Medvedev.
Vladimir Pútin, forsætisráðherra Rússlands, hefur verið sæmdur friðarverðulaunum Konfúsíusar. Ástæðan er annarsvegar að hann var á móti loftárásum Nató á Líbíu, sem og fyrir að hafa farið í stríð í við Tjéténíu árið 1999, og þannig tryggt öryggi Rússlands.

Verðlaunin eru veitt árlega af kínversku ríkisstjórninni. Menningarmálaráðherra Kína var reyndar búinn að tilkynna að verðlaunin yrðu ekki veitt í ár. BBC greinir hinsvegar frá því að ljóðskáldið, Qiao Damo, sem situr í nefnd Konfúsíus-verðlaunanna, hafi engu að síður tilkynnt að verðlaunaafhendingin færi fram 9. desember næstkomandi, degi áður en friðarverðlaun Nóbels eru tilkynnt.

Verðlaunin þykja heldur sérkennileg. Þá ekki síst vegna þess að á síðasta ári voru þau veitt stjórnmálamanninum Lien Chan frá Taívan. Hann frétti hinsvegar aldrei af þeim og mætti því ekki á verðlaunaafhendinguna sjálfa.

Þess í stað fékk ung stúlka verðlaunin. Það var hinsvegar aldrei opinberað hver hún væri eða af hverju hún fékk verðlaunin. Þrátt fyrir fyrirspurnir fjölmiðla er dómnefndin þögul sem gröfin.

Ekki er vitað hvort Pútín viti af því að hann hafi hlotið verðlaunin.

Kínverjar eru reyndar enn æfir út í Nóbelsakademíuna fyrir að hafa veitt kínverska skáldinu Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári. Hann er samviskufangi í Kína. Verðlaunin settu mikinn pólitískan þrýsting á kínversk yfirvöld um að sleppa Xiaobo.

Haft er eftir nefndarmanni Konfúsíus-verðlaunanna að honum finnist Nóbelsverðlaunin hafa færst of langt frá upprunalegum tilgangi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×