Erlent

Ferðamenn streyma enn til Southfork tuttugu árum eftir Dallas

Þrátt fyrir að 20 ár séu liðin frá því að sýningum á hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Dallas var hætt streyma ferðamenn enn á Southfork búgarðinn í Texas.

Southfork búgarðurinn var sviðið í Dalls þáttunum þar sem J.R. Ewing, maðurinn sem þú elskaðir að hata, og afgangurinn af fólkinu í kringum olíufélagið Ewing Oil, hallmælti, sveik og skaut hvert annað. Síðasti þátturinn af Dallas fór í loftið árið 1991 en eftir það var Southfork breytt í ferðamannastað.

Í nýlegri umfjöllun blaðsins Los Angeles Times segir að tuttugu árum síðar streymi ferðamenn enn til Southfork allsstaðar að úr heiminum. Sem stendur er boðið upp á 11 skoðunarferðir um búgarðinn á hverjum degi. Í þeim gefst ferðamönnunum kostur á að sjá brot úr þáttunum, byssuna sem J.R. var skotinn með, brúðkaupskjól Lucy, hatt og kúrekastígvél J.R. og söðlana sem Ewing-fjölskylda notaði í útreiðartúrum sínum.

Aðstandendur Southfork hugsa svo gott til glóðarinnar á næsta ári þegar ný þáttaröð af Dallas verður sýnd. Í henni koma fram þrír af leikurunum frá fyrri þáttum, það er Larry Hagman, Patrick Duffy og Linda Gray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×