Erlent

Picasso í ruslagámi

Málverkið eftir Picasso sem endaði í ruslinu.
Málverkið eftir Picasso sem endaði í ruslinu.
Listaheimurinn tók andköf í maí á síðasta ári þegar bíræfinn þjófur hnuplaði fimm listaverkum af Musée d'Art Moderne í París. Málverk eftir Picasso og Matisse voru á meðal þeirra sem var stolið.

Eftir að hafa rannsakað málið í rúmt ár telur lögreglan í París sig vita hvað varð um verkin. Þrír menn hafa verið handteknir - þjófurinn sjálfur og tveir vitorðsmenn. Mennirnir hafa játað.

Einn mannanna sagði að eftir ránið hefði það reynst erfitt að selja verkin. Svo erfiðlega gekk að koma verkunum í sölu að maðurinn ákvað einfaldlega að losa sig við þau. Hann fleygði þeim í ruslagám og beið eftir ruslabílnum.

Sérfræðingar meta verkin fimm á 100 milljónir evra samtals.

Alríkislögreglan í Bandaríkjunum telur að heildarviðskipti fyrir stolin málverk á ári hverju nemi 3 milljörðum dollara. Interpol segist hafa um 30.000 stolin listaverk í gagnabanka sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×