Innlent

Ellý Katrín verður borgarritari

Ellý Katrín.
Ellý Katrín.
Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra að ráða Ellý Katrínu Guðmundsdóttur, sviðsstýru Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar í stöðu borgarritara.

Staða borgarritara var auglýst laus til umsóknar þann 10. september síðastliðinn  og rann umsóknarfrestur út þann 26. september. Alls bárust 28 umsóknir, en sex umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka áður en nafnalisti umsækjenda var gerður opinber. Því var valið úr 22 umsóknum.

Ráðgjafar Capacent Ráðninga höfðu umsjón með ráðningarferlinu.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir er lögfræðingur að mennt, cand. juris frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í umhverfis- og alþjóðarétti frá lagadeild háskólans í Wisconsin, Bandaríkjunum.

Að loknu embættisprófi í lögfræði starfaði Ellý Katrín sem lögfræðingur hjá Einkaleyfastofu í 3 ár og árin 1998 til 2002 starfaði hún sem lögfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington DC.

Ellý Katrín hefur margra ára reynslu sem stjórnandi innan opinberrar stjórnsýslu. Hún hefur starfað sem forstöðumaður og sviðsstýra hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, síðar Umhverfissviði í 5 ár, forstjóri Umhverfisstofnunar í tæpt ár og frá 2008 hefur hún gegnt stöðu sviðsstýru Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.

Ellý hefur setið í fjölda nefnda og ráða, var meðal annars kjörin af Alþingi í stjórnlaganefnd á síðastliðnu  ári og situr í stjórn Sæmundar fróða, stofnunar Háskóla Íslands um sjálfbæra þróun.

Ellý Katrín er gift Magnúsi Karli Magnússyni og eiga þau tvö börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×