Erlent

Játaði bæði á sig nauðgun og morð eftir að hafa verið misþyrmt

Frá Líbíu
Frá Líbíu mynd/AFP
Sautján ára dreng, sem grunaður er um að vera stuðningsmaður Gaddafís, var misþyrmt svo illa í Líbýsku fangelsi að hann játaði á sig bæði nauðgun og morð. Mannréttindasamtök leggja hart að bráðabirgðastjórn landsins að stöðva pyntingar í fangelsum.

Mannréttindasamtökin Amnesty hafa birt skýrslu um meðferð fanga í líbískum fangelsum undir bráðabirgðastjórn uppreisnarmanna.

Skýrslan byggir meðal annars á viðtölum við 300 fanga og heimsóknum í 11 fangelsi bæði í ágúst, skömmu áður en Trípólí féll, og í september.

Í skýrslunni er látið í veðri vaka að misþyrmingar á föngum séu blettur á nýrri líbíu, Samtökin telja sig hafa undir höndum sannanir um pyntingar og misþyrmingu fanga sem grunaðir eru um að vera stuðningsmenn Gaddafís, hermenn hans eða málaliðar.

Þar segir að eftirlitsmenn Amnesty hafi fundið pyntingartól í einu fangelsinu, en annarsstaðar bárust hljóð af svipuhöggum og öskrum um gangana. Að minnsta kosti tveir verðir frá sitthvoru fangelsinu viðurkenndu aukinheldur að hafa lamið fanga til að knýja fram játningu.

Sautján ára piltur frá Tsjad, sem grunaður var um nauðgun og að vera málaliði Gaddafís sagði eftirlitsmönnunum að honum hefði verið misþyrmt svo illa að hann hafi ákveðið að játa á sig sakirnar.

Alls hafa hersveitir bráðabirgðastjórnarinnar handsamað fleiri en 2500 manns í nágrenni höfuðborgarinnar Trípólí, flesta án þess að hafa fyrir því handtökuheimild, að því er Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Það hefur eftir fulltrúa Amnesty að samtökin skilji vel þá erfiðleika sem bráðabirgðastjórnvöld landsins glíma við, en þeir verði að senda skilaboð um að í hinni nýju Líbíu sé ill meðferð fanga ekki liðin.

Forsvarsmenn bráðabirgðastjórnarinnar hafa ítrekað fullyrt að misbeiting valds verði ekki liðin, og ásakanir þar um verði rannsakaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×