Íslenski boltinn

Umfjöllun: Markasúpa í Árbænum

Kristinn Páll Teitsson á Fylkisvellinum skrifar
Mynd/Daníel
FH tryggðu sér 2. sætið í Pepsi deild karla í dag með 5-3 sigri á Fylki í Árbæ. Með þessu tryggðu þeir sér 2. sætið og með því þáttökurétt í Evrópukeppninni á næsta ári. Fylkismenn hinsvegar duttu niður í 7. sæti eftir sigur Breiðabliks á Stjörnunni.

Fylkismenn glímdu við meiðsli og bönn og þurfti Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis að gera margar breytingar og tefldi fram ungu liði. Þeir náðu hinsvegar forystunni eftir 10. mínútur þegar löng aukaspyrna kom inn í teig FH og Davíð Þór Ásbjörnsson, leikmaður Fylkis nýtti sér skógarferð Gunnleifs í marki FH og skallaði í autt netið.

Eftir þetta féllu Fylkismenn aftur og FH gengu á lagið en Fylkismenn voru þó afar ógnandi í skyndisóknum sínum. Það var hinsvegar FH sem átti næsta mark, sending kom af kantinum og Matthías Vilhjálmsson var einn og óvaldaður á fjærstöng og skoraði framhjá Fjalari í marki Fylkis. Stuðningsmenn FH voru varla sestir þegar Atli Guðnason prjónaði sig gegnum vörn Fylkis og boltinn barst á nafna hans Atla Viðar sem var einn gegn Fjalari og setti hann örugglega í þaknetið.

Markasúpan hélt svo áfram, Björn Daníel Sverrisson, leikmaður FH skoraði þriðja markið aðeins 3. mínútum eftir annað markið með skemmtilegri bakfallsspyrnu. Fylkismenn voru þó ekki af baki dottnir og Albert Brynjar Ingason minnkaði muninn rétt fyrir leikhlé.

FH byrjuðu seinni hálfleikinn vel og skoruðu fjórða mark sitt á 52. mínútu þegar Atli Viðar skoraði sitt annað mark eftir klaufaskap í vörn Fylkis. Ólafur Páll Snorrason bætti svo við fimmta markinu á 63. mínútu með góðu skoti.

Fylkismenn náðu að klóra í bakkann á 73. mínútu og var þar að verki markahrókurinn Jóhann Þórhallsson eftir góða sendingu frá varamanninum Ásgeiri Eyþórssyni. Það var þó ekki nóg og lauk leiknum með 5-3 sigri FH.

FH enduðu því í 2. sæti og er þetta í fyrsta sinn síðan 2003 sem liðið vinnur hvorki Íslands- né bikarmeistaratitilinn. Þeir kvöddu einnig í dag Tommy Nielsen en varnarmaðurinn fékk heiðursskiptingu á 87. mínútu og klöppuðu áhorfendur og leikmenn þegar varnarmaðurinn sterki fór útaf í síðasta sinn fyrir FH.



Fylkir – FH 3-5

Fylkisvöllur. Áhorfendur: 501

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson 8

Skot (á mark): 13–18 (7-10)

Varin skot: Fjalar 5 – Gunnleifur 4

Hornspyrnur: 4–4

Aukaspyrnur fengnar: 12 - 14

Rangstöður: 3–4

Fylkir (4-5-1):

Fjalar Þorgeirsson 5

Trausti Björn Ríkharðsson 4

Kristján Valdimarsson 3

Davíð Þór Ásbjörnsson 5

Ásgeir Örn Arnþórsson

Baldur Bett 5

(55. Rúrik Andri Þorfinsson 4)

Styrmir Erlendsson 6

Elís Rafn Björnsson 6

Hjörtur Hermannsson 6

(69. Ásgeir Eyþórsson 5)

Andri Már Hermannsson 4

(45. Jóhann Þórhallsson 6)

Albert Brynjar Ingason 8

FH (4-3-3):

Gunnleifur Gunnleifsson 5

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson 4

(65. Bjarki Gunnlaugsson 6)

Freyr Bjarnson 5

Tommy Nielsen 6

(87. Jón Ragnar Jónsson )

Björn Daníel Sverrisson 7

Hólmar Örn Rúnarsson 5

Pétur Viðarsson 5

Matthías Vilhjálmsson 6

Atli Guðnason 6

(82. Gunnar Kristjánsson )

Atli Viðar Björnsson 8 – Maður leiksins

Ólafur Páll Snorrason 8






Fleiri fréttir

Sjá meira


×