Innlent

Þingmenn líti í eigin barm

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásta Ragnheiður sagði að þjóðin yrði að líta í eigin barm.
Ásta Ragnheiður sagði að þjóðin yrði að líta í eigin barm.
Þjóðin gerir kröfu til breyttra vinnubragða og að þingmenn líti í eigin barm og finni til ábyrgðar sem einstaklingar og kjörnir fulltrúar. Þetta sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, við þingsetningu í dag.

„Það verður aldrei of oft sagt að ímynd Alþingis í hugum landsmanna er á ábyrgð okkar sem sitjum hér í þessum þingsal. Höfum ætíð hugfast að forsenda þess að fólk beri virðingu fyrir Alþingi er að við berum virðingu hver fyrir öðrum og virðum skoðanir hver annars. Okkur hefur verið trúað fyrir fjöreggi lýðræðisins, sem Alþingi er, og undir þeirri ábyrgð verðum við að standa ef við viljum tryggja heilbrigt stjórnmálalíf í landi okkar," sagði Ásta Ragnheiður. 

Ásta Ragnheiður sagði að dagurinn í dag væri merkur áfangi í sögu Alþingis vegna nýrra þingskapa sem taka gildi. „Líta má á þessi nýju þingsköp sem svar Alþingis við þeim kröfum að þingið, líkt og aðrar stofnanir samfélagsins, dragi sinn lærdóm af þeim áföllum sem þjóðfélag okkar varð fyrir með bankahruninu árið 2008,“ sagði Ásta Ragnheiður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×