Íslenski boltinn

Rúnar: Fallega gert af Valsmönnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Mynd/Daníel
Rúnar Kristinsson var ánægður með baráttuna hjá leikmönnum sínum í markalausa jafnteflinu gegn Val í dag. Hann staðfesti að hann yrði áfram með lið KR.

„Bæði lið vildu vinna leikinn, það var mikil barátta og það var gaman að sjá. Þó svo að leikurinn skipti bæði lið litlu máli var greinilega áhugi beggja liða á að vinna leikinn. Leikmenn beggja lið voru duglegir að fara í tæklingar. Ákefðin í leiknum sýndi það," sagði Rúnar.

Valsmenn stóðu heiðursvörð þegar KR-ingar gengu inn á völlinn í dag. Rúnar sagði það hafa verið fallega gert.

„Ég var reyndar ennþá inni í klefa en strákarnir voru mjög sáttir við þetta. Þetta var fallega gert af Valsmönnum og sómi af þeim og þeirra félagi. Maður hefur séð þetta gert annars staðar þar sem menn hafa hampað titli þegar síðasti leikur fer fram."

„Að sama skapi vil ég minnast á eftir leikinn á móti Fylki þegar við tryggðum okkur titilinn. Þá komu Fylkismenn aftur út á völlinn á meðan verið var að afhenda verðlaunin," sagði Rúnar sem tók undir með blaðamanni að það væru miklir heiðursmenn í íslenskum fótbolta.

„Óli Þórðar fór og sótti leikmenn sína inn í klefa þegar hann sá að það átti að afhenda okkur verðlaunin. Hann fékk alla sína stráka út á völlinn og í dag standa leikmenn Vals heiðursvörð. Það var mjög flott hjá þeim."

Rúnar var beðinn um að leggja mat á sumarið 2011 hjá KR-ingum.

„Þetta hefur verið frábært sumar hjá okkur. Við töpuðum bara einum leik í Íslandsmótinu og unnum það nokkuð sannfærandi. Við unnum bikarinn líka og sumarið verið frábært. Við sýndum líka fína leiki í Evrópukeppninni, margir leikir og þetta var skemmtilegt. Búið að vera mikið álag en virkilega gaman og svona viljum við hafa það"

Rúnar staðfesti að lokum að hann yrði áfram með KR-liðið.

„Já, það er engin breyting í kortunum um það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×