Innlent

Virðing Alþingis ræðst af verkum þess

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni segir að helstu stofnanir Íslands séu talaðar niður.
Bjarni segir að helstu stofnanir Íslands séu talaðar niður. Mynd/ Vilhelm.
Bjarni Benediktsson segir að þingmenn og ráðherrar tali niður helstu stofnanir Íslands og spyr hvaða tilgangi það þjóni. Þetta sagði hann í umræðum um stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í kvöld.

„Ég spyr mig hvaða tilgangi það þjónar þegar einstaka þingmenn mæta ekki við þingsetningu í mótmælaskyni við forsetann?  Telja þeir slíka framkomu til þess fallna að auka virðingu og veg Alþingis? Og hvers vegna er hópur þingmanna á móti þeirri hefð og venju að mæta til kirkju við þingsetninguna?" spurði Bjarni. Hann benti á að fyrir ári síðan hafi forsætisráðherra sagt opinberlega að hún íhugaði að segja sig úr þjóðkirkjunni. „Hvers vegna er það, sem héðan úr þinginu er verið að tala niður helstu stofnanir þjóðfélagsins einmitt þegar við þurfum hvað mest á þeim styrku stoðum að halda?" sagði Bjarni.

Bjarni sagði að mönnum væri tíðrætt um virðingu þingsins og sagði að það hefði ekki farið framhjá neinum að mjög hefði dregið úr trausti til Alþingis. Við því yrði að bregðast og sjálfagt væri að skoða fyrirkomulag umræðunnar í þinginu. „Það er hins vegar einlæg sannfæring mín að virðing og traust til Alþingis, muni hér eftir sem hingað til, haldast í hendur við þann árangur sem störf þingsins skila," sagði Bjarni.   






Fleiri fréttir

Sjá meira


×