Innlent

Forseti virði stjórnarstefnu

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni í gær að forseti lýðveldisins yrði að virða stefnu réttkjörinna stjórnvalda. Forsetinn þyrfti að vera hafinn yfir dægurþras stjórnmálanna, enda væri hann sameiningartákn þjóðarinnar.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur gagnrýnt ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir undanlátssemi í Icesave-málinu. Forsætisráðherra tilkynnti í síðasta mánuði að hún hygðist ræða þau ummæli við forsetann. Sá fundur hefur farið fram, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Ríkisráð fundaði í gær en gagnrýni forsetans á ríkisstjórnina bar ekki þar á góma. Jóhanna sagði í stefnuræðu sinni að stjórnarskráin legði forsetanum ákveðnar stjórnarathafnir í hendur, í orði kveðnu, en ráðherrar bæru jafnframt ábyrgð á þeim. Óumdeilanlegt væri að forsetinn hefði frelsi til að tjá sig opinberlega. Hann yrði þó að virða í orði og verki stefnu réttkjörinna stjórnvalda.

„Það verður ekki ráðið af stjórnskipun landsins að gert sé ráð fyrir því að forseti lýðveldisins tali fyrir öðrum áherslum í pólitískum álitamálum en þeim sem stjórnvöld hafa mótað," sagði Jóhanna.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni að forseti lýðveldisins gæti gert betur í sínum athöfnum. Það sagði hann reyndar líka um þingheim allan og fleiri aðila í samfélaginu, þar með talda fjölmiðla.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis-, mennta- og menningarmálaráðherra, gagnrýndi forsetann einnig í gær. Hún sagði honum ætlað að flytja boðskap sameiningar og samstöðu en það hefði brugðist við þingsetningu á laugardag.

„Forsetinn tók til máls sem stjórnmálamaður en ekki forseti, þingheimur átti þess ekki kost að svara honum á þessum vettvangi, heldur sátum við sem þægur skólabekkur undir ræðunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×