Innlent

Fjallað um Facebook í Háskólanum

Í dag fer fram í Háskóla Íslands fyrirlestur um Facebook sem fluttur er af  Daniel Miller, prófessor í mannfræði við University College í Lundúnum. Þar verður fjallað um fyrstu mannfræðirannsóknina sem gerð hefur verið á afleiðingum Facebook-notkunar. Fyrirlesturinn, sem haldinn er í boði Félags- og mannvísindadeildar og Mannfræðifélags Íslands, hefst klukkan þrjú í stofu 104 á Háskólatorgi.

„Fyrirlestur Millers gerir grein fyrir fyrstu mannfræðirannsókninni á afleiðingum Facebook-notkunar sem var gerð á Trinidad,“ segir í tilkynningu frá Háskólanum. „Þar rannsakaði Miller hvernig samskiptasíðan hefur breytt félagslegum samskiptum og gefa niðurstöðurnar til kynna að notkun tengslasíða muni breytast töluvert í framtíðinni og verði hugsanlega mun mikilvægari fyrir eldra fólk en yngra.  Um rannsóknina má fræðast nánar í nýútgefinni bók Millers, Tales from Facebook (2011), og byggir fyrirlesturinn talsvert á þeirri bók.“

Þá segir að í fyrirlestrinum noti Miller einnig rannsóknina til að lýsa nýju sviði innan mannfræðinnar, stafrænni mannfræði, en hann hefur nú komið á fót kennslu og rannsóknum á því sviði við UCL. „Mannfræðin hefur ávallt beint sjónum sínum að félagslegum tengslum og ætti því að hafa sérstakan áhuga á rannsóknum á tengslasíðum á netinu. Nú nota um 600 milljónir samskiptasíðuna Facebook og notendum hennar fer fjölgandi á stöðum eins og Indónesíu og Tyrklandi. Flestar akademískar rannsóknir á síðunni hafa þó beinst að upphafi hennar, uppgötvun og notkun í Bandaríkjunum.“

Daniel Miller hefur stundað rannsóknir á Trinidad, Jamaica, Indlandi og London. Þær hafa einkum beinst að efnismenningu, neyslu og tengslum fólks við hluti á borð við gallabuxur, heimili, fjölmiðla og bíla. Hann hefur gefið út fjölda greina og bóka, til að mynda The Comfort of Things (2008), The dialect of shopping (2001), Anthropology and the Individual (2009) og  Stuff (2009).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×