Innlent

Lýsisflutningaskip strandaði í höfninni í Þórshöfn

Flutningaskip strandaði í höfninni á Þórshöfn á Langanesi um klukkan sjö í morgun. Kafari mun í dag kanna hvort einhverjar skemmdir hafa orðið á botni skipsins, sem flytur lýsi. Engar vísbendingar hafa enn sést um olíuleka, en það verður kannað til hlítar. Mjög hvasst var þegar skipverjar reyndu að leggja því að bryggju. Vegna stærðar og mikillar yfirbyggingar tekur skipið á sig mikinn vind og snérist það undan vindinum og rak í strand í höfninni.

Nokkrum taugum var í skyndi komið úr skipinu yfir í stóran vörubíl í landi, sem náði skipinu á flot, enda voru sjávarföll hagstæð. Við það slitnaði ein dráttartaugin og lenti í skrúfu skipsins, sem þá var komin á fulla ferð. Óljóst er hvort skrúfan hefur skemmst.

Skipið, sem heitir Kaprifol og er 93 metra langt, er skráð á Kýpur, undri stjórn rússnesks skipstjóra. Ekki verður farið að lesta það fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að engar skemmdir hafi orðið á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×