Innlent

Urðu ekki varir við skotvopn

Frá mótmælunum í gær.
Frá mótmælunum í gær. Mynd Anton Brink
Lögreglumenn sem gættu Alþingishússins í gær, urðu ekki varir við skotvopn í fórum mótmælenda í gærkvöldi að sögn Harðar Jóhannessonar, aðstoðarlögreglustjóra.

„Málið er til rannsóknar að svo miklu leyti sem það er hægt," segir Hörður en tvær 22. kalíbera byssukúlur fundust fyrir framan þinghúsið í morgun þegar Þorsteinn Pálmarson þreif það.

Þorsteinn afhenti þingvörðum kúlurnar og þeir kölluðu umsvifalaust lögregluna til. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, var verulega brugðið þegar Vísir ræddi við hana fyrr í dag. Hún sagði þingheimi vera almennt mjög brugðið vegna þessa, enda um alvarlegt mál að ræða.

Að sögn Harðar þá hefur lögreglan engar vísbendingar um það hver skildi skotin eftir. Þá er ekki hægt að segja til um það hvort skotin hafi verið skilin viljandi eftir fyrir utan þinghúsið eða fyrir tilviljun. Þá er ekki einu sinni hægt að spá fyrir um það hvort um ósmekklegt grín sé að ræða eða einhver skotveiðimaðurinn hafi einfaldlega misst þau fyrir framan þinghúsið.

Lögreglan rannsakar málið og lítur það alvarlegum augum.


Tengdar fréttir

Þingheimi mjög brugðið eftir að byssukúlur fundust

Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, segir að öllum sé verulega brugðið eftir að byssukúlur fundust við þrif í morgun eftir mótmælin, sem fram fóru í gærkvöldi við setningu Alþingis.

Fundu skothylki fyrir framan Alþingishúsið

„Okkur var mjög brugðið að sjá þetta," segir Þorsteinn Pálmarson, framkvæmdastjóri hreinsunarfyrirtækisins Allt-Af, en þeir fundu tvær 22. kalibera byssukúlur fyrir framan Alþingishúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×