Innlent

Kærði viðskiptafélagann til Persónuverndar og lögreglu

Viðskiptafélaginn dreifði dómi Hæstaréttar í allt að 30 hús.
Viðskiptafélaginn dreifði dómi Hæstaréttar í allt að 30 hús.
Karlmaður kvartaði undan fyrrum viðskiptafélaga sínum til Persónuverndar. Þá hefur hann einnig kært félagann til lögreglu vegna áreitis.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að viðskiptafélaginn hafi hótað manninum í gegnum síma og á netinu. Þá prentaði hann út dóm Hæstaréttar, sem maðurinn hlaut, og dreifði í 25 til 30 hús. Þá hótaði maðurinn ennfremur að fá dóminn birtan á forsíðu DV.

Ekki kemur fram í úrskurði Persónuverndar fyrir hvað maðurinn var dæmdur.

Maðurinn sem kvartaði til Persónuverndar segist hafa kært viðskiptafélagann til lögreglu vegna endurtekinna hótana. Loforð var tekið af viðskiptafélaganum að hann myndi láta af hegðun sinni. Það samkomulag stóð í skamman tíma, en svo fór hann að hóta manninum á ný, samkvæmt úrskurði Persónuverndar.

Maðurinn vildi að Persónuvernd úrskurðaði um það hvort manninum væri heimilt að dreifa dómi Hæstaréttar á heimilin. Persónuvernd segir að slíkt sé almennt ólöglegt samkvæmt lögum um Persónuvernd, en í ljósi þess að lögreglan rannsakar málið, þá sér Persónuvernd ekki ástæðu til þess að aðhafast að svo komnu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×