Innlent

Leigusali á Spáni dæmdur fyrir að féfletta fjölskylduföður

Kona á fertugsaldri var dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun fyrir fjárdrátt í júlí árið 2008.

Konan er dæmd fyrir að hafa dregið að sér tæplega 400 þúsund krónur sem fjölskyldufaðir lagði inn á hana í þeirri von að hann væri að leigja húsnæði á Spáni. Fórnarlambið sá auglýsingu á vefsíðunni barnaland.is um leiguíbúðir á Spáni og númer konunnar fylgdi með auglýsingunni.

Hann greiddi henni féð í þeirri von um að hann fengi húsnæðið. Þegar hann fór til Spánar ásamt fjölskyldu kom í ljós að konan ætlaði að svíkjast undan samkomulaginu. Hún svaraði ekki þegar hann reyndi að hafa samband við hana.

Konan sagði fyrir héraðsdómi að hún hefði lent í ofsóknum af hálfu yfirmanns síns sem sá um leiguíbúðirnar. Það hefði í raun verið hann sem olli því að fjölskyldan fékk ekki húsnæðið. Konan hélt því meðal annars fram að hún hefði kært manninn til lögreglunnar á Spáni og málið væri í farvegi þar í landi. Aftur á móti neitaði hún að gefa upp fullt nafn mannsins. Auk þess sem hún gat ekki sýnt fram á það að málið væri fyrir lögreglu á Spáni.

Dómurinn taldi því framburð konunnar ótrúverðugan. Konan var því dæmd í skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hún þarf að endurgreiða fjölskylduföðurnum upphæðina sem hún stal.

Þá segir í dóminum að dráttur á rannsókn málsins er ámælisverður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×