Innlent

Baldur hentar betur en Herjólfur

Breiðafjarðarferjan Baldur hefur nú siglt til síns heima eftir að hafa þjónað Vestmannaeyingum í hartnær mánuð. Baldurs er nú sárt saknað af Eyjamönnum enda telja þeir að ferjan hafi sannað gildi Landeyjarhafnar og sett ný viðmið.

Ferjan Baldur sigldi inn í Landeyjahöfn að kvöldi 27. september síðastliðinn og var ölduhæðin þá þrír metrar. Ferjan virtist kastast til í öldurótinu, skjótast inn í höfnina áður en hún lagðist að byrggju.

Hreyfingar skipsins, þrátt fyrir þriggja metra ölduhæð voru ekki meiri en svo að farartækin óku óskemmd frá borði þrátt fyrir að þeim hafi verið raðað þétt um borð. Sömu sögu var að segja þegar siglt var út úr höfninni. Baldur fór þá auðveldlega í gegnum öldugarðana.

Með tilkomu Baldurs þykir minna skip fyrir Landeyjahöfn hafa sannað gildi sitt og sett ný viðmið.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að Baldur hafi sett ný viðmið. „Herjólfur siglir ekki í Landeyjarhöfn þegar ölduhæðin er yfir tveimur og hálfum metra en Baldur fór inn í höfnina í yfir þremur og hálfum," segir hann.

Baldur fór í síðustu ferðir sínar milli Lands og Eyja sunnudaginn 2. október. Þann dag mældist ölduhæðin á Bakkafjörudufli 3,4 metrar.

Elliði segist hafa talað við Sæferðir, sem reka Baldur. „Það er allt opið í þeim efnum," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×