Innlent

Bleik brjóst prjónuð á ljósastaur

Hérna má sjá bleiku brjóstin
Hérna má sjá bleiku brjóstin mynd úr einkasafni
„Þetta fær að vera hjá okkur á meðan átakið er í gangi,“ segir Laila Sæunn Pétursdóttir, markaðs- og fjáröflunarstjóri hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Þegar starfsfólk félagsins mætti til vinnu í vikunni blasti við þeim skemmtileg sjón en einhver hafði prjónað bleik brjóst á ljósastaur fyrir utan Skógarhlíðina, þar sem félagið er með höfuðstöðvar sínar.

„Við sáum þetta bara þegar við komum í vinnuna og við höfum ekki hugmynd um hver prjónaði þetta skemmtilega verk,“ segir hún. „Þetta kemur skemmtilega út.“

Krabbameinsfélag Íslands er með átak núna í gangi gegn brjóstakrabbameini en í því eru seldar nælur sem bera yfirskriftina: Bleika slaufan. Salan hófst 1. október og stendur í tvær vikur. Á tímabilinu verða ýmsir viðburðir sem félagið stendur fyrir.

„Sá sem gerði þetta veit greinilega að við erum í átakinu svo þetta er bara skemmtilegt,“ segir Laila að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×