Innlent

Dæmdur fyrir að stela vél og gírkassa úr bifreið Lýsingar

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands.
Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands í gær fyrir að hafa fjarlægt aflvél og gírkassa úr bifreiðinni sem Lýsing hf., var skráður eigandi að, en sá dæmdi hafði til umráða.

Maðurinn, sem er 25 ára gamall, reif einnig útvarpið úr bílnum og var upphaflega ákærður fyrir að fjárdrátt með því að fjarlægja tækin en í dóminum kemur fram að verðmæti þeirra hafi verið rúmar fjórar milljónir króna.

Maðurinn skilaði hinsvegar útvarpstækinu og lækkaði þá upphæðina sem því nam, eða um 30 þúsund krónur.

Við rannsókn málsins hjá lögreglu bar maðurinn á þá leið að vél bifreiðarinnar hefði „hrunið" og hann látið fjarlægja vélina í þeim tilgangi að láta gera við hana.

Gírkassi bifreiðarinnar var einnig fjarlægður úr bifreiðinni í einni og sömu aðgerðinni. Maðurinn vildi hins vegar ekki gefa upp hvar umræddir hlutir væru niðurkomnir, þótt eftir því hafi ítrekað verið gengið við rannsókn málsins.

Talið er að þetta hafi gerst á milli júlí 2009 og 2010.

Maðurinn játaði brot sín. Fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi maðurinn almennt skilorð í þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×