Innlent

Réttað yfir lögreglumanni

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Aðalmeðferð fer nú fram í máli ríkissaksóknara gegn lögreglumanni sem hefur verið ákærður fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot. Meint brot áttu sér stað þegar lögreglumaðurinn veitti ökumanni eftirför úr Reykjavík í Mosfellsbæ í ágúst á síðasta ári.

Lögreglumaðurinn, sem er rúmlega fimmtugur og starfar sem varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, neitaði sök þegar málið var þingfest í maí síðastliðnum.

Málavextir eru þeir að lögreglumaðurinn var undir stýri lögreglubíls og mældi ungan ökumann á of miklum hraða í Reykjavík. Hann gaf honum í kjölfarið merki um að stöðva bílinn en sá virti það að vettugi, ók greitt um götur borgarinnar og síðan áleiðis í Mosfellsbæ.

Maðurinn ók að lokum inn í öngstræti í Leirvogstungu og neyddist til að stöðva bílinn. Hann stökk síðan út úr honum.

Lögregluvarðstjórinn kom aðvífandi á bíl sínum, tókst ekki að stöðva hann í tæka tíð og ók á unga manninn, sem hlaut opið beinbrot á vinstra fæti. Í ákæru er því haldið fram að varðstjórinn hafi ekið ógætilega að bílnum og of hratt miðað við aðstæður og þannig orðið valdur að slysinu.

Ungi maðurinn fer fram á ríflega tvær og hálfa milljón króna í bætur frá lögreglumanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×