Innlent

Þrjú ár liðin frá því Geir bað Guð um að blessa Ísland

Í dag eru þrjú ár liðin frá því að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, ávarpaði þjóðina í beinni útsendingu. Hann bað meðal annars Guð um að blessa Ísland.

Í ávarpinu sagði hann meðal annars að heimsbyggðin öll gengi í gegnum mikla fjármálakreppu og ríkisstjórnir í mörgum löndum myndu nú róa lífróður til að bjarga því sem bjargað verður heimafyrir.

„Íslenska þjóðin og framtíð hennar gengur framar öllum öðrum hagsmunum. Um helgina var fundað nær linnulaust um stöðu fjármálakerfisins. Ég get fullyrt að allir þeir sem komu að því borði reyndu sitt ítrasta til að búa svo um hnútana að starfsemi banka og fjármálastofnana gæti haldið áfram með eðlilegum hætti í dag og ávinningur að vinnu helgarinnar gerði það að verkum að í gærkvöldi var útlit fyrir það að bankarnir gætu fleytt sér áfram um sinn.“

Þá hvatti hann alla til að láta gott af sér leiða til þess að daglegt líf færi ekki úr skorðum.

„Ef einhvern tíman hefur verið þörf á því að íslenska þjóðin stæði saman og sýndi æðruleysi andspænis erfiðleikum þá er sú stund runnin upp. Ég hvet ykkur öll til að standa vörð um það sem skiptir mestu máli í lífi hvers einasta manns, standa vörð um þau lífsgildi sem standast það gjörningaveður sem nú er að hefjast.“

Hann endaði svo ávarp sitt á orðunum: „Guð blessi Ísland.“

Hér að ofan er hægt að horfa á ávarpið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×