Innlent

Hæstiréttur staðfestir fjórtán ára dóm yfir Þorvarði

Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm yfir Þorvarði Davíð Ólafssyni, sem var dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Hann réðst á föður sinn, Ólaf Þórðarson tónlistarmann, og veitti honum lífshættulega áverka.

Ólafur hlaut alvarlegan heilaskaða og hefur dvalið á Grensásdeild. Þegar dómur féll yfir Þorvarði í Héraðsdómi Reykjavíkur sagði ákæruvaldið ekki vita til þess að þyngri dómur hafi fallið fyrir tilraun til manndráps. Slíkir dómar hafa verið í kringum fimm ár.

Þorvarður játaði sök fyrir dómi. Hann kvaðst hafa verið að drekka og neyta fíkniefna með konu sama dag og atlagan átti sér stað.

Kona hefði borið sakir á föður hans, sem hann hefði þá trúað. Eftir þetta hélt Þorvarður á heimili föður síns til að ræða málið við hann. Hann kvaðst hafa misst stjórn á sér og meðal annars kýlt föður sinn tvisvar af afli í höfuðið með hnúajárni, auk þess að sparka ítrekað í hann.

Konan sem bar sakirnar á Ólaf sagði síðar við skýrslutökur að hún hefði aldrei hitt hann né haft nokkur samskipti við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×