Innlent

Reykjavíkurborg taki þátt í rekstri leigufélaga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Gnarr er borgarstjóri.
Jón Gnarr er borgarstjóri.
Jón Gnarr borgarstjóri leggur til að Reykjavíkurborg styðji við uppbyggingu á varanlegum og öruggum leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og auka fjölbreytileika í framboði á leiguhúsnæði.

Í samræmi við þetta lagi borgarstjóri fram tillögu í borgarráði í dag þess efnis að fjármálaskrifstofu falið að láta gera úttekt til að kanna kosti þess og galla að Reykjavíkurborg verði kjölfestuaðili í fasteignafélögum um stofnframkvæmdir við leiguhúsnæði og/eða kjölfestuaðili að leigufélögum um rekstur leiguhúsnæðis. Samkvæmt tillögunni verður skoðað hvaða áhrif mismunandi aðkoma Reykjavíkurborgar muni hafa á félög á samkeppnismarkaði.

Tillagan gerir ráð fyrir að framlag borgarinnar fellist í lóðum, fasteignum eða beinum framlögum. Sérstaklega verði kannað hvort leigufélagið yrði eftir atvikum rekið innan Félagsbústaða sem sérstök deild eða stofnað sjálfstætt félag með öðrum aðilum. Ennfremur er lagt til að Reykjavíkurborg auglýsi eftir samstarfsaðilum sem vilja byggja upp langtímaleigumarkað á tilgreindum svæðum miðsvæðis í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að kostnaður við tillöguna verði tvær milljónir króna.

Tillaga borgarstjóra er byggð á skýrslu vinnuhóps um mótun húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar 2020. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði létu bóka að þeir gerðu fyrirvara við hugmyndir um að Reykjavíkurborg hasli sér völl á leigumarkaði í samkeppni við einkaaðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×