Innlent

Líklegt að þingmenn hafi ekki vitað hvað þeir samþykktu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir töluvert álag fylgja því að vera formaður þingnefndar.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir töluvert álag fylgja því að vera formaður þingnefndar. Mynd/ Pjetur.
Líklegt er að þingmenn hafi ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að samþykkja þegar þeir ákváðu að varaformenn þingnefnda skyldu fá greitt álag fyrir þá vinnu sína, segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrsti varaforseti Alþingis.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í kvöld breyttust kjör nokkurra þingmanna þegar ný þingskaparlög tóku gildi 1. október. Samkvæmt breytingunni mun fyrsti varaformaður hverrar þingnefndar fá 10% álag á þingfararkaup, eða um 55 þúsund krónur, fyrir að gegna því embætti. Annar varaformaður í þingnefnd fær 5% álag, eða um 27 þúsund krónur. Formaður þingnefndar hefur um árabil fengið 15% álag á þingfararkaupið og það er óbreytt samkvæmt nýju þingskaparlögunum. Þingfararkaupið er svo um 545 þúsund krónur.

„Ég er eiginlega alveg viss um það að æði margir gerðu sér enga grein fyrir því hvað þeir voru að samþykkja, hvað þetta varðar. Af því að um þetta varð engin umræða. Þannig að kannski flaut þetta bara svona með," segir Ragnheiður. En hún segir jafnframt að það sé töluvert starf að vera formaður í þingnefnd. „Þú ert sá sem stýrir skútunni og ef þú ert fjarverandi þarf einhver annar að koma inn og klára verkefnið," segir Ragnheiður. Fyrsti varaformaður og annar varaformaður fái svo greitt hlutfallslega í samræmi við ábyrgð.

Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir, sem bæði eru þingmenn Samfylkingarinnar, hafa lagt til að kjararáð verði falið að ákveða hvort þingmenn eigi að fá álagsgreiðslur og þá hversu háar. Aðspurð segist Ragnheiður ekki vera viss um að hún geti verið sammála því. „Ég bara veit ekki hvað mér finnst um það. Mér finnst satt að segja ærið nóg að kjararáð úrskurði um grunnlaun þingmanna," segir Ragnheiður.

Ragnheiður segir að þingmenn séu lægst launaða stéttin í stjórnskipuninni. „Flestallir embættismenn í ráðuneytinu eru með hærri laun, jafnvel hærri grunnlaun og síðan einingar og yfirvinnu. Þingmenn hafa ekki slíkt," segir Ragnheiður. Hún segist ekki vera viss um að þingmenn eigi að ávísa því út fyrir þingið hvort það eigi að greiða formönnum þingnefnda álag eða ekki. Þingmenn eigi að taka einhverja ábyrgð á eigin launum.

Ekki náðist í Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, en hún er í embættiserindum á Möltu.


Tengdar fréttir

Þingmenn fengu launahækkun

Allir varaformenn fastanefnda Alþingis fengu 10 prósent, eða um fimmtíu og fimm þúsund króna, launahækkun frá og með síðustu mánaðamótum. Hækkunin leggst ofan á þingfarakaupið sem er 545 þúsund krónur. Launahækkanirnar fengu þeir með sérstökum álagsgreiðslum sem greiddar eru í samræmi við lög um þingfararkaup, en þau lög tóku breytingum um leið og þingsköpum var breytt.

Mörður segir álagsgreiðslur til varaformanna þingnefnda fráleitar

Breytingar sem gerðar voru á álagsgreiðslum til þingmanna eru fráleitar, að mati Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Breytingarnar fela í sér að varaformenn þingnefnda fá um 55 þúsund krónur í álagsgreiðslur ofan á þingfararkaupið sem er um 545 þúsund krónur. Annar varaformaður þingnefndar, sem er nýtt embætti sem skipað er í samkvæmt nýjum þingskaparlögum, fær fimm prósent hækkun. Það jafngildir um 27 þúsund krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×