Innlent

Strætófarþegum fjölgað á árinu

Farþegar sem ferðuðust með strætisvögnum Strætó bs. voru um 16,5% fleiri á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við sama tímabil á síðasta ári, samkvæmt mælingu fyrirtækisins. Að því er fram kemur í tilkynningu má að öllu óbreyttu gera ráð fyrir að farþegafjöldinn fari yfir níu milljónir á þessu ári. Fjöldinn á árinu 2010 var um átta milljónir en mælingar Strætó á fjölda farþega byggja á farmiðasölu.

„Það sem af er þessu ári var mestur fjöldi farþega í marsmánuði,“ segir ennfremur. „Þá voru strætisvagnafarþegar tæplega ein milljón. Fjöldinn í september var um 850 þúsund, í ágúst um 857 þúsund en fæstir nýttu sér strætisvagna í júlí á árinu, eða um 517 þúsund. Þeir voru þó töluvert fleiri þá en í júlímánuði í fyrra er um 408 þúsund ferðuðust með strætó. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs höfðu um 6,7 milljónir manns ferðast með strætisvögnum Strætó bs. Á sama tímabili 2010 var fjöldinn nærri 5,8 milljónir. Fjölgunin milli ára er því tæplega ein milljón strætisvagnafarþegar.“

„Ástæða er til að fagna þeirri miklu fjölgun strætisvagnafarþega sem orðið hefur á þessu ári,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó. „Fólk nýtir betur en áður þá þjónustu sem Strætó bs. býður upp á, auk þess sem þeim hefur fjölgað sem treysta á strætisvagnakerfið. Vonandi heldur sú þróun áfram, því aukin notkun styrkir almenningssamgöngur. Aukinn farþegafjöldi gerir hins vegar að verkum að álagið á annatímum er gríðarlegt. Í þessu er því mikil áskorun fyrir Strætó bs., sem starfsmenn fyrirtækisins gera sitt besta til að mæta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×