Innlent

Ráðherra krefst þess að kynjum sé ekki mismunað í námsbókum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir.
Menntamálaráðherra hefur sent Námsgagnastofnun erindi þar sem þess er krafist að kynjunum sé ekki mismunað í námsbókum. Þetta kemur til í framhaldi af rannsókn sem gerð var fyrir Jafnréttisstofu og sýndi skertan hlut kvenna í sögubókum.

Jafnréttisstofa lét í sumar gera rannsókn á birtingarmyndum kynjanna í námsbókum fyrir miðstig grunnskóla. Niðurstaðan var sú að víða hallaði verulega á konur. Þær bækur sem verst komu út í rannsókninni voru Sögueyjan 1 og 2, sem eru nýjustu sögubækur Námsgagnastofnunar, gefnar út 2009 og 2010.

Svandís Svavarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur nú sent Námsgagnastofnun erindi þar sem vakin er athygli á niðurstöðum þessarar rannsóknar og lögð áhersla á að jafnrétti er einn af sex grunnþáttum náms samkvæmt aðalnámskrá.

Í bréfinu kemur einnig fram að ráðherra líti niðurstöðu rannsóknarinnar alvarlegum augum og telji brýnt að Námsgagnastofnun endurskoði verkferla um námsefnisgerð og að skoðað verði hvað geti farið úrskeiðis þegar námsbók verður til. Ráðherra beindi þeim tilmælum til Námsgagnastofnunar að hún setji sér úrbótaáætlun.

Þá óskar ráðherra eftir því að Námsgagnastofnun sendi ráðuneytinu til umsagnar drög að úrbótaáætlun og nýjum verkferlum, eigi síðar en 18. október.


Tengdar fréttir

Hallar á hlut kvenna í íslenskum kennslubókum

Námsgagnastofnun ætlar að endurskoða sögubækur fyrir grunnskólanema eftir að rannsókn Jafnréttisstofu leiddi í ljós að verulega hallar á hlut kvenna í bókunum. Dæmi eru um að engin kona sé nefnd í atriðisorðaskrá í kennslubókum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×