Innlent

Verða að endurheimta traust almennings

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kofi Annan flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag.
Kofi Annan flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag.
Stjórnmálaleiðtogar í heiminum og alþjóðlegar stofnanir þurfa að endurheimta traust almennings, sagði Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í ræðu í Háskóla Íslands í dag. Hann segir að þetta sé lykillinn að því að finna sameiginlegar lausnir á hnattrænum vandamálum, ekki síst eftir efnahagskreppu heimsins. Einnig þyrfti að auka traust milli þjóða.

Annan gerði efnahagsástandið á Íslandi að umtalsefni í ræðu sinni. „Ísland varð eitt af fyrstu fórnarlömbum hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Þið voruð fyrst til að reyna þá eyðileggingu sem skeytingarleysi einstaklinga og stjórnlausir og taumlausir fjármagnsflutningar geta valdið. Við höfum nú séð áhrif rangs mats og mistaka um allan heim. Græðgi einstaklinga og áhættusækni olli fyrst hruni banka og síðan niðursveiflu heilla hagkerfa. Afleiðingin er alvarlegasta hagræna og félagslega kreppa sem orðið hefur í marga áratugi," sagði Annan.

Hann sagði að það væri ekki að undra að fólk um allan heim sé reitt og að traust þess til leiðtoga og stofnana hafi beðið alvarlegan hnekki. „Fólkið trúir því að á sama tíma og ríkisstjórnir ákveða að bankarnir séu of stórir til að falla skipti almenningur litlu máli," segir Kofi Annan.

Annan heldur af landi brott síðdegis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×