Innlent

Formaður BSRB: Óeirðasveit lögreglunnar fær ekki aukalega greitt

Erla Hlynsdóttir skrifar
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB
Formaður BSRB segir hækkanir á launum þingmanna hafa komið á óvart. Hún lítur á þær sem fordæmisgefandi fyrir sína félagsmenn í kjarabaráttunni.

Samkvæmt nýjum þingskapalögum sem tóku gildi þann 1. október fá allir varaformenn fastanefnda Alþingis tíu prósenta launahækkun. Hækkunin felst í sérstökum álagsgreiðslum sem leggjast ofan á þingfararkaup.

Með nýju lögunum varð einnig til embættis annars varaformanns og þeir sem því embætti gegna fá fimm prósenta launahækkun.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir hækkunina hafa komið sér í opna skjöldu.

„Þær komu óneitanlega á óvart þar sem ríkið er ekki að greiða almennt fyrir setur í nefndum og ráðum," segir hún.

Henni þykir ljóst að félagsmenn BSRB líti til þessara hækkana í sinni kjarabaráttu.

„Já, við teljum það auðvitað að þetta sé fordæmisgefandi þegar félagsmenn okkar eru að taka að sér auknar byrðir í sínum störfum. Þar má til dæmis nefna óeirðalögregluna."

Hún bendir á að lögreglumenn fái ekki sérstakar álagsgreiðslur fyrir að vera í óeirðasveitinni.

„Við hljótum öll að horfa til þess að það er verið að greiða þarna auka greiðslur fyrir aukið álag."

Fyrsti varaforseti Alþingis, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, segir hún efist um að þingmenn hafi vitað hvað þeir voru að samþykkja þegar þeir ákváðu þessar álagsgreiðslur, því lítil sem engin umræða hafi farið fram um þær í þinginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×