Innlent

Ganga berserksgang í fangaklefa

Tveir innbrotsþjófar sem voru í haldi lögreglu fóru hamförum í fangaklefum í nótt eftir að hafa gleypt mikið magn af amfetamíni. Mennirnir náðust á flótta eftir að hafa brotist inn í raftækjaverslun í Kópavogi í nótt.

Það var starfsmaður Securitas sem náði að hlaupa þá uppi en þeir höfðu ekki haft neitt upp úr krafsinu. Mennirnir höfðu talsvert magn af amfetamíni í fórum sínum og gleyptu þeir það allt áður en lögregla kom á staðinn. Þegar í fangaklefa kom rann á þá mikil amfetamínvíma og brutu þeir allt sem þeir gátu. Víman heldur þeim enn vakandi og enn berja þeir klefann að innan. Lögregla telur þó ekki nauðsynlegt að flytja þá sjúkrahús en vonast til að þeir sofni von bráðar.

Mikill erill var annars hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og talsvert um líkamsárásir. Um hálf þrjú leytið var tilkynnt um tilefnislausa árás í Austurstræti. Þar ruddist átján ára piltur út úr bíl, réðst á næsta mann og rotaði. Lögreglu tókst að hafa hendur í hári hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×