Innlent

1,5 milljarður til Háskóla Íslands

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tilkynnti í dag um fjárframlög til Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Hörpunni vegna 100 ára afmælis háskólans. Um er að ræða sjóð upp á 1,5 milljarð króna sem Háskólanum verður ráðstafað næstu fjögur ár.

Fjárveitingin er árangurstengd. Í því felst að skólinn setur fram mælikvarða og markmið sem stefna skal að. Það er svo ekki fyrr en skólinn nær þeim markmiðum að hann fær fjárveitinguna sem sjóðurinn býður upp á.

Þau markmið sem um ræðir koma fram í stefnu skólans á árunum 2011-2016. Um þau má fræðast hér. Sjóðurinn er helst hugsaður til að gera skólanum mögulegt að framfylgja þessari stefnu.

Fjárveitingin gerir skólanum meðal annars kleift að ráða inn nýja kennara. „Þess vegna er þetta svo gríðarlega mikilvægt," segir Kristín Ingólfsdóttir rektor skólans, en á undanförnum árum hefur nemendum við skólann fjölgað ört án þess að skólinn hafi haft svigrúm til að ráða inn nýtt starfsfólk.

Sjóðurinn er fyrsti áfangi í markmiðasetningu til lengri tíma. Markmiðið er að árið 2016 verði heildartekjur Háskóla Íslands sambærilegar við meðaltalstekjur háskóla í OECD ríkjunum og þá að árið 2020 verði þær sambærilegar við meðaltal á norðurlöndunum. Að þessu skal stefnt án þess að tekin verði upp skólagjöld eða skrásetningargjald við skólann hækkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×