Íslenski boltinn

Eyjafréttir: Gunnar Heiðar næstu fjögur árin hjá ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Mynd/AFP
Eyjafréttir hafa heimildir fyrir því að Gunnar Heiðar Þorvaldsson muni skrifa undir fjögurra ára samning við ÍBV á morgun en hann mun þá snúa aftur til Eyja eftir sjö ár í atvinnumennsku.

Gunnar Heiðar fékk sig nýverið lausann frá danska liðinu Esbjerg en hann hefur flakkað mikið á milli liða á undanförnum árum og ekki fundið sig með liðum eins og Hannover 96, Valerenga, Esbjerg, Reading og Fredrikstad.

Gunnar Heiðar hefur skorað 37 mörk í 72 leikjum með ÍBV í úrvalsdeild karla en hann varð markakóngur í deildinni þegar hann spilaði síðast í henni sumarið 2004.

Gunnar Heiðar verður þó fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við Eyjaliðið í vetur en áður höfðu Brynjar Gauti Guðjónsson (frá Víkingi Ólafsvík), Guðmundur Þórarinsson (frá Selfossi) og Ian Jeffs (frá Val) samið við ÍBV.

Gunnar Heiðar er ekki sá eini úr ættinni sem snýr heim til Eyja því fyrr í vetur hafði systir hans, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, ákveðið að skipta í ÍBV úr Breiðabliki þar sem hún hefur spilað undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×