Íslenski boltinn

Fótbolti.net: Ólafur Þórðarson verður næsti þjálfari Víkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Þórðarson.
Ólafur Þórðarson. Mynd/Anton
Ólafur Þórðarson verður ekki áfram þjálfari hjá Fylkismenn í Pepsi-deild karla í fótbolta og vefsíðan fótbolti.net hefur heimildir fyrir því að Ólafur taki við B-deildarliði Víkings af Bjarnólfi Lárussyni.

Ólafur verður fjórði þjálfari Víkingsliðsins á árinu. Leifur Garðarson var rekinn fyrir tímabilið og Bjarniólfur Lárusson tók við þegar Andri Marteinsson var rekinn í júlí.

Ólafur tilkynnti forráðamönnum Fylkis í vikunni að hann verði ekki áfram með liðið en það kom fyrst fram í Morgunblaðinu í morgun. Ólafur hefur náð að forða sínu liði frá allri fallbaráttu í sumar þótt að liðið hafi þurft að láta tvo af bestu leikmenn sína fara á miðju sumri, þá Andrés Má Jóhannesson og Ingimund Níels Óskarsson.

Gylfi Einarsson og Baldur Bett hafa líka lítið getað hjálpað til að undanförnu vegna meiðsla og Gylfi hefur þegar lagt skóna á hilluna.

Ólafur hefur gefið ungum og efnilegum Fylkismönnum tækifærið og liðið er sem stendur í 6. sæti deildarinnar með 25 stig, tíu stigum minna en Valur (5. sæti) og einu stigi meira en Breiðablik (7. sæti).

Ólafur Þórðarson hefur þjálfað Fylki undanfarin þrjú tímabil en þjálfaði einnig liðið í b-deildinni 1998 til 1999. Ólafur hefur aðeins misst út eitt ár í úrvalsdeildinni á þessari öld en hann þjálfaði ÍA frá 1999 til 2006 og Framara sumarið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×